Framleiðslan

Pabbi í reykkofanumVið framleiðum vörurnar okkar úr lambakjöti, sauðakjöti, ærkjöt.  Að auki erum við með reyktan silung.  
Íslenska lambakjötið hefur ávallt þótt gæðavara.  Lömb sem hafa alist upp á fjölbreytilegu gróðurlendi eins og er í okkar afrétt og heimalöndum er einstaklega bragðgott kjöt. Eftir slátrun tökum við kjötið strax heim og látum hanga og meyrna fyrir frystingu. Við það verður kjötið bragðmeira og er tilbúið til eldunnar strax eftir þiðnun. Ær- og sauðakjöt er bragðmeira kjöt en lambið og þykir mörgum það besta kjötið. Sauðakjötið er af veturgömlu fé og er sjaldgæf gæðavara þar sem lítið er af sauðakjöti á íslenskum markaði, þó löng hefð er fyrir neyslu þess. Ærkjöt er af ám eldri en veturgömlum og hentar vel sem reykt og hangið en einnig gott í hakk sem hráefni í bollur, pottrétti og hamborgara. Ásamt því að selja kjötið okkar ferskt í lærum, bógum, hryggjum, sneiðum, file o.s.frv. erum við með unnar vörur s.s. hakk, sperðlar og hvundagssteik 

 Það er gömul hefð að taðreykja kjöt og fisk í Mývatnssveit til að auka geymsluþol matar. Við höldum fast í þessa hefð og leggjum áherslu á góð og vönduð vinnubrögð við verkun á taðinu. Allt okkar tað kemur frá býlinu og er látið veðrast vel og þorna áður en við hreykjum það og stöflum í stæður. Allar okkar afurðir eru eingöngu reyktar með taði

Til margra ára höfum við reykt silung bæði úr Mývatni og eldisfisk frá nágrannasveitum og er silungurinn ávallt til sölu.